Áslaug Hulda Jónsdóttir

Áslaug Hulda hefur búið í Garðabæ nær alla sína ævi, gengið í skóla bæjarins á öllum stigum nema því yngsta og tekið virkan þátt í íþrótta-, tómstunda-, félags- og menningarlífi bæjarins. Hún var 16 ára þegar hún gekk í Sjálfstæðisflokkinn og fagnar því 30 ára sambúðarafmæli með honum í vor. Hún hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, verið kosningastjóri, aðstoðarmaður ráðherra og í forystuhlutverki fyrir unga sjálfstæðismenn hér á árum áður.

Eftir stúdentspróf úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ hélt Áslaug Hulda í Kennaraháskóla Íslands og sinnti samhliða náminu ýmsum störfum, m.a. var hún skólastjóri Vinnuskóla Garðabæjar, í forvarnarstarfi í Garðalundi og fréttamennsku og dagskrárstjórastöðu á einkareknu sjónvarpsstöðvunum. Hún hefur einnig lokið stjórnendanámi frá IESE Business School í Barcelona.

Áslaug Hulda hefur gegnt hinum ýmsu embættum á bæjarstjórnarferli sínum og auk stjórnar- og nefndarstarfa, sat hún meðal annars í stjórn Viðskiptaráðs, stjórn Samtaka verslunar og þjónustu og var einnig formaður Samtaka sjálfstætt starfandi skóla.

Menntamál hafa verið henni hugleikin alla tíð. Auk þess að hafa verið aðstoðarmaður menntamálaráðherra og um tíma forstöðumaður menntasviðs Samtaka verslunar og þjónustu, var hún framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar ehf. frá 2008-2015 þar sem hún bar ábyrgð á öllum daglegum rekstri, fjármálum, mannauðsmálum og stefnumótun en Hjallastefnan er með 19 sjálfstætt starfandi leik- og grunnskóla víðs vegar um landið og rúmlega 500 starfsmenn.

Þá var Áslaug Hulda framkvæmdastjóri farsæls heilbrigðis- og velferðarfyrirtækis þegar það var að komast á legg en sérhæfing þess er heimaþjónusta við fatlaða einstaklinga og eldri borgara. Síðustu árin hefur Áslaug Hulda komið að uppbyggingu eina fyrirtækisins á Íslandi sem endurvinnur plast, Pure North Recycling ehf. en vinnsluaðferðin þar er einstök á heimsvísu þar sem jarðvarminn er nýttur í vinnsluna sem gerir ferlið eins umhverfisvænt og nokkur kostur er. Þá er hún framkvæmdastjóri FENÚR, fagráðs um endurnýtingu og úrgang. Áslaug hefur setið í stjórn Gildis lífeyrissjóðs síðustu sex ár.

Áslaug er gift Áka Sveinssyni, markaðsstjóra og bassaleikara, og þau eiga tvo syni.

 

Ferilskrá Áslaugar má nálgast hér.

Áslaug Hulda Jónsdóttir © 2024. Allur réttur áskilinn.