Velkomin

Áslaug Hulda Jónsdóttir býður sig fram til forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Garðabæ. Áslaug er bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Garðabæjar. Hún var í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar.

Áslaug hefur verið í bæjarstjórn í rúman áratug, fyrst sem forseti bæjarstjórnar og nú sem formaður bæjarráðs. Hún er öflugur stjórnmálamaður og mikilvægur talsmaður Sjálfstæðisflokksins og sveitarstjórnarstigsins á landsvísu.

Hún var framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar um árabil, kom að uppbyggingu fyrirtækis í heilbrigðisþjónustu og hefur síðustu misseri tekið þátt í að byggja upp plastendurvinnslufyrirtækið Pure North Recycling. Hún situr í stjórn lífeyrissjóðsins Gildis og er formaður skólanefndar Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Áður kom hún að stofnun heilbrigðis- og velferðarfyrirtækis sem sinnir m.a. heimaþjónustu fyrir aldraða og fatlaða einstaklinga.

Áslaug hefur verið virk í félagsstörfum frá því hún sat í stjórnum nemendafélaga Garðaskóla og FG. Hún hefur setið í stjórn Viðskiptaráðs, stjórn Samtaka verslunar og þjónustu, verið formaður Samtaka sjálfstætt starfandi skóla og leitt kjaraviðræður fyrir hönd samtakanna.

Áslaug er grunnskólakennari að mennt og lauk stjórnendanámi frá viðskiptaháskólanum IESE í Barcelona.

Mér þykir vænt um bæinn minn og fólkið sem hér býr. Það hefur gengið vel í Garðabæ og við höfum fjölmörg tækifæri til að gera enn betur. Ég óska eftir því að leiða Sjálfstæðisflokkinn í komandi sveitarstjórnarkosningum. Þar mun víðtæk reynsla mín úr stjórnmálum, stjórnsýslunni og atvinnulífinu nýtast vel. Ég hef verið í forystu á vettvangi stjórnmálanna og stýrt stóru fyrirtæki. Ég horfi á stóru myndina, einbeiti mér að nýjum tækifærum og hef mikinn drifkraft.

Áslaug Hulda Jónsdóttir

Þetta skiptir máli:

LEIKSKÓLAR

Leikskólarnir eru samfélagi okkar mikilvægir og þá þurfum við að efla og styrkja.
Garðabær á að vera áfram í forystu í leikskólamálum.

Í Garðabæ munum við áfram bjóða upp á leikskólavist þegar fæðingarorlofi lýkur. Skólarnir verða áfram opnir á sumrin. Fjölskyldur eiga að hafa val um leikskóla og mikilvægt að þær geti valið skóla í sínu nærumhverfi. Fjölgum sjálfstætt starfandi skólum til að fjölskyldur hafi val um ólíka valkosti. Við bætum starfsumhverfi starfsfólks leikskóla, færum það nær starfsumhverfi grunnskólakennara og hvetjum fólk til náms. Það þarf að fara í ákveðnar kerfisbreytingar í leikskólakerfinu á Íslandi og Garðabær á að leiða þá vinnu.

Áslaug Hulda hefur mikla þekkingu á leikskólamálum. Hún var framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar sem rekur 19 leik- og grunnskóla. Áður var hún aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra og síðar forstöðumaður menntasviðs SVÞ. Þá var hún formaður Samtaka sjálfstætt starfandi skóla og formaður kjarasamningsnefndar samtakanna. Hún er grunnskólakennari að mennt og lauk stjórnendanámi í viðskiptaháskólanum IESE.

Hér má lesa nýlega grein sem Áslaug Hulda skrifaði um leikskólamál.

STERK FJÁRHAGSSTAÐA ER GRUNNURINN AÐ GÓÐRI ÞJÓNUSTU

Fjárhagsstaðan í Garðabæ er sterk, álögur lágar og skuldir hóflegar. Þetta skiptir máli enda er sterk fjárhagsstaða forsenda góðrar þjónustu og oftast er fylgni milli góðrar þjónustu og ánægju íbúa.  Útsvarshlutfallið í Garðabæ er það lægsta sem þekkist meðal stærri sveitarfélaga. Álögum hefur verið haldið lágum og skuldahlutfallið er svipað og undanfarin ár. Á kjörtímabilinu höfum við lækkað álagningarprósentu fasteignaskatts en fasteignamat hefur hækkað mikið og mikilvægt að horfa til frekari lækkana á álagningarprósentu fasteignaskatts.

Áslaug Hulda hefur verið formaður bæjarráðs Garðabæjar frá árinu 2014. Hún var framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar og stýrði öllum daglegum rekstri, starfsmenn yfir 500. Hefur setið í stjórn Gildis- lífeyrissjóðs frá árinu 2016 og staðist hæfnismat FME.

ELDRI BÆJARBÚAR

Það hefur orðið stórkostleg vitundarvakning um mikilvægi þess að viðhalda virkni og stuðla að vellíðan eldra fólks. Mikil þátttaka í Janusar-verkefninu, gönguhópar, golf, kaffihúsahittingar, zumba, sund, Qi-Gong, skák og bridge eru aðeins örfá dæmi um mikilvæga félagslega þætti í lífi eldri íbúa.

Fjölnota íþróttahúsið Miðgarður mun bæta aðstöðu til heilsueflingar til muna. Félagsstarfið í Jónshúsi er öflugt en við þurfum að gera betur, fjölga valkostum og lengja opnunartíma.

Huga þarf að uppbyggingu á þjónustu og félagsstarfi í nýjum hverfum til að auka aðgengi eldri bæjarbúa í nærumhverfi sínu.

Samþætta þarf betur verkefni og þjónustu ríkis og sveitarfélaga við eldra fólk með sérstakri áherslu á samþættingu heimahjúkrunar og stuðningsþjónustu. Finna þarf nýjar leiðir til þess að auka við stuðning og heimaþjónustu, samhliða því að stuðla að aukinni virkni.

Ákveðin gjá hefur myndast hjá hópi aldraðra þegar búseta í heimahúsi verður erfið en dvöl á hjúkrunarheimili hentar ekki eða er ekki í boði. Við þurfum áfram að tryggja framboð á fjölbreyttu húsnæði í sveitarfélaginu. Eins mun lækkun fasteignagjalda hafa jákvæð áhrif á þennan hóp. Ríkið verður að fjölga rýmum á hjúkrunarheimilum og efla dagþjónustu.

Ástandið á heilsugæslunni er ekki boðlegt. Það gengur ekki að biðtími aldraðra og veikra eftir því að fá tíma hjá lækni teljist í vikum. Við þurfum að tryggja þessum hópi greiðan aðgang að öldrunarlæknum eða hjúkrunarfræðingum.

Mikil tækifæri eru í betri nýtingu á fjölbreyttri velferðartækni sem og samhæfingu milli þjónustukerfa með það að markmiði að bæta þjónustu. Ávinningurinn er hagkvæmni, minni sóun á tíma og mannafla og umfram allt annað, aukin lífsgæði og sjálfstæði notenda. Við þurfum að setja aukinn kraft og áherslu á innleiðingu velferðartækni í þjónustu við eldra fólk.

Áslaug Hulda hefur verið í forystuhlutverki í bæjarstjórn Garðabæjar í rúman áratug og þekkir því málefni eldri bæjarbúa vel. Hún kom að stofnun og stýrði á upphafsárum heilbrigðis- og velferðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í heimaþjónustu við eldri bæjarbúa og fatlað fólk.

Hér má lesa nýlega grein sem Áslaug Hulda skrifaði um málaflokkinn.

STAFRÆN ÞRÓUN

Með stafrænni þróun getum við aukið þjónustu sveitarfélaganna, gert hana skilvirkari og betri. Fjárhagslegur ávinningur er líka töluverður. Með fjárfestingu í stafrænni þróun förum við betur með fjármuni.  Stafræn vegferð Garðabæjar er hafin en við þurfum að halda áfram. Nýtum tæknina til framfara.

Áslaug Hulda hefur verið í forystu sveitarstjórnarmanna sem unnið hafa að því að efla stafræna þróun á sveitarstjórnarstiginu. Áslaug Hulda er fulltrúi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í stýrihópi Sambands íslenskra sveitarfélaga um stafræna þróun sveitarfélaga og var einnig formaður stýrihóps Garðabæjar um stafræna þróun Garðabæjar.

Áslaug Hulda stýrði ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga um stafræna þróun. Hér er hlekkur þar sem finna má margt áhugavert um möguleika sveitarfélaganna í stafrænni þróun. Hér geturðu svo lesið nýlega grein Áslaugar um stafræna framtíð.

FLOKKUN OG FJÁRHAGSLEGIR HVATAR

Við þurfum að minnka neyslu, minnka úrgang og huga betur að nýtingu verðmæta. Á tímum hringrásarhagkerfis og sjálfbærni þurfum við að hugsa um úrgang sem verðmæti. Með betri flokkun aukast möguleikar á endurnýtingu og endurvinnslu sem eykur þessi verðmæti. Samræmd og aukin flokkun hjá sveitarfélögunum er mikilvæg, auknir valkostir fyrir bæjarbúa bæði við heimili sín og við grenndargáma.  Fjárhagslegir hvatar fyrir íbúa og atvinnulífið í Garðabæ eru góð hugmynd til að ná betri árangri í þessum málum. Endurhugsum, endurnýtum og endurvinnum.

Áslaug Hulda hefur m.a. lagt fram tillögur sem samþykktar hafa verið í bæjarstjórn tengdar málaflokknum. Má þar nefna tillögur um fjárhagslega hvata fyrir bæjarbúa sem flokka, tillögu um bætta úrgangsstjórnun í útboðum Garðabæjar og tillögu um að kolefnisjafna starfsemi sveitarfélagsins. Áslaug Hulda hefur mikla þekkingu á málaflokknum, hún er framkvæmdastjóri FENÚR – fagráðs um endurnýtingu og úrgang.

Í janúar 2022 var hún skipuð í stjórn Úrvinnslusjóðs sem fulltrúi sveitarstjórnarstigsins fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga en í stjórninni sitja einnig fulltrúar atvinnulífs og Umhverfis- og auðlindaráðherra. Þá tók hún þátt í uppbyggingu endurvinnslufyrirtækisins Pure North Recycling.

UPPBYGGING OG INNVIÐIR

Í Garðabæ mun uppbygging halda áfram. Fjölbreytt framboð verður af lóðum fyrir íbúðir og atvinnuhúsnæði, uppbygging er fyrirhuguð í Vífilsstaðalandi, Hnoðraholti, Urriðaholti og á Álftanesi. Við viljum að ungt fólk geti keypt sína fyrstu íbúð í Garðabæ, að ungar fjölskyldur geti stækkað við sig og að Garðbæingar sem hafa flutt úr bænum geti komið heim. Á næstu sjö árum er stefnt að því að byggja hátt í 3.000 íbúðir sem verða sambland af fjölbýli, rað- og parhúsum ásamt sérbýli.

Uppbyggingu fylgja fjárfestingar og vöxtur kallar á uppbyggingu innviða. Við höfum þegar hafið undirbúning að viðbyggingu Urriðaholtsskóla auk nýs leikskóla. Fjölnota íþróttahúsið Miðgarður var nýverið tekið í notkun. Á árinu verður byggður nýr búsetukjarni fyrir fatlað fólk og þá verða endurbætur á skólalóðum, íþróttavöllum og opnum svæðum. Við höldum áfram með viðhald gatna og stíga, aukum hljóðvist og svo mætti áfram telja. Við höldum áfram.

Áslaug Hulda hefur verið formaður bæjarráðs frá árinu 2014. Hún var upphafsmaður og síðar formaður dómnefndar um hönnunarsamkeppni fyrir nýtt hverfi í Lyngási þar sem sérstaklega var hugað að þörfum ungs fólks.

ÖFLUGT ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDASTARF

Garðabær er heilsueflandi samfélag og í bæjarfélaginu er fjölbreytt framboð af íþrótta- og tómstundastarfi fyrir börn, ungmenni, eldri bæjarbúa og aðra. Þátttaka í íþrótta- og tómstundastarfi er mikilvæg þegar horft er til forvarna, vellíðunar og heilbrigðra lífshátta.

Aðstaða og aðbúnaður á að vera til fyrirmyndar. Við höldum uppbyggingu áfram en þurfum jafnframt að huga betur að viðhaldi mannvirkja og búnaðar. Það felast tækifæri í opnum svæðum. Við höfum sett upp líkamræktartæki og frisbígolfvöll en hvað með aðstöðu til sjósunds, gönguskíðabrautir og skautasvell!

Við höldum áfram að þróa hvatapeninga og finnum leiðir til að hvetja unga sem aldna til enn frekari hreyfingar og virkni. Heimsfaraldurinn hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir andlega líðan fólks. Öflugt íþrótta- og tómstundastarf hefur sennilega aldrei verið eins mikilvægt og nú enda spornar það gegn félagslegri einangrun og eykur vellíðan. Við þurfum að auka framboð á fjölbreyttum valkostum og hvetja alla aldurshópa til þátttöku.

Eflum frjálsu félögin og breytum nálgun. Nálgumst framboð á íþrótta- og tómstundastarfi sem aðkeypta þjónustu en ekki eingöngu sem styrki. Gefum í með metnað og fagmennsku að leiðarljósi. Efla þarf frístund og félagsmiðstöðvar, samþætta þarf skóla- og frístundastarf. Frístundabíll er mikilvægur hlekkur í þjónustunni við fjölskyldufólk.

Áslaug Hulda hefur tekið virkan þátt í ýmis konar félagsstörfum frá unga aldri. Hún starfaði í félagsmiðstöðinni Garðalundi um langt skeið, stýrði foreldraröltinu og öðrum forvarnarmálum ásamt því að stýra Vinnuskóla Garðabæjar á sumrin.

UMHVERFI

Gott skipulag hefur ekki aðeins áhrif á það að við komumst örugglega á milli staða heldur hefur það líka áhrif á líðan okkar. Góð tenging á milli hverfa er jafn mikilvæg og tenging við ósnortna náttúru. Varðveitum náttúruperlur og lífríki og verndum og merkjum söguminjar.

Höldum áfram að efla stígakerfið og horfum til ólíkra þarfa þeirra sem ganga, hlaupa og hjóla. Gætum þess að lýsing sé í lagi. Höldum bænum okkar snyrtilegum. Við hugusm vel um opin svæði, grasið á að vera vel slegið og beðin hirt. Á veturna vöndum við okkur við að ryðja götur og stíga ásamt því að hálkuverja. Við þurfum að fjölga ruslafötum og gæta að viðaldi stíga og opinna svæða. Fjölgum hleðslustöðvum og hvetjum til notkunar á vistvænum samgöngum.

Áslaug Hulda hefur verið ötull stuðningsmaður friðunar á svæðum innan bæjarins í þeim tilgangi að festa í sessi útivistarsvæði Garðbæinga til framtíðar.

GRUNNSKÓLAR

Við viljum ekki samfélag þar sem allir eru eins, hugsa eins og gera eins. Þess vegna verða skólarnir okkar að vera fjölbreyttir og þar þarf börnunum okkar að líða vel. Mikilvægt er að þau upplifi sig örugg í skólanum og fái bestu mögulegu næringu, jafnt andlega sem líkamlega.

Hlutverk stjórnmálanna er að tryggja fólki val um skóla, að búa til ólíka valkosti og sjá til þess að starfsumhverfi kennara sé aðlaðandi. Þannig fáum við framúrskarandi starfsfólk í skólana og þannig verða skólarnir okkar öflugir. Enn eitt mikilvægt atriði í lífi fjölskyldna er samþætting skóla og frístunda. Tómstunda- og íþróttastarf þarf að taka með í reikninginn þegar kemur að þjónustu við bæjarbúa.

Áslaug Hulda er grunnskólakennari að mennt og starfaði sem framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar um árabil. Hún var skólastjóri Vinnuskóla Garðabæjar og starfaði í félagsmiðstöðinni Garðalundi. Hún hefur auk þess áratuga reynslu í sveitarstjórnarmálum þar sem hún hefur látið sig skólana varða. Áslaug var formaður Samtaka sjálfstætt starfandi skóla. Hún er því öllum hnútum kunnug þegar kemur að grunnskólastiginu.

SKEMMTILEGT MANNLÍF OG ÖFLUGT ATVINNULÍF

Góður bæjarbragur skiptir miklu máli. Aðlaðandi umhverfi og góð aðstaða styðja við góðan bæjarbrag. Garðatorg hefur tekið stakkaskiptum síðustu ár og enn er hægt að bæta um betur með frekari lagfæringum og nýjungum á torginu.

Lækkun fasteignaskatta er jákvæður hvati fyrir atvinnulífið sem aftur ýtir undir menningarlíf í bænum. Garðbæingar eru orðnir fleiri en 18 þúsund talsins og þar af leiðandi er sérdeilis mikilvægt að boðið sé upp á fjölbreytta afþreyingu og dagskrá fyrir alla aldurshópa.

Sveitarfélagið er stórt og víðfeðmt og því kjörið að nýta opin svæði fyrir fjölbreyttar uppákomur og hvers kyns heilsueflandi starfsemi. Markmiðið á að vera að mæta þörfum íbúa Garðabæjar, hvort sem þeir eru ungir eða eldri, skapandi listafólk, útivistarfólk eða innipúkar. Fylgnin á milli góðrar þjónustu og ánægju íbúa er mikil.

Áslaug Hulda er dugmikill þátttakandi í mannlífi bæjarins. Hún hefur veislustýrt viðburðum hjá félagasamtökum í bænum, talað fyrir viðburðahaldi s.s. tónleikum á Vífilsstaðatúni, knattspyrnuáhorfi á Garðatorgi og svo mætti lengi telja. Hún er öflugur stuðningsmaður þess að byggja upp þjónustu í heimabyggð sem eykur möguleika bæjarbúa á samveru.

Tölum saman!

Hringdu

Númerið mitt

+354 858 3555

Sendu póst

Tölvupóstur

Vertu á miðlunum

Mínir samfélagsmiðlar

Áslaug Hulda Jónsdóttir © 2024. Allur réttur áskilinn.