Eldra fólk er alls konar

Ástandið á heilsugæslunni er ekki boðlegt. Það gengur ekki að biðtími aldraðra og veikra eftir læknisþjónustu teljist í vikum. Auk þess viljum við að fólk sem þarf vist á dvalar- eða hjúkrunarheimili komist að. Heimaþjónusta þarf að vera öflugri og aðstoð meiri þannig að fólk sem kýs að búa áfram heima fái meiri aðstoð til þess að svo megi verða. Dagdvöl þarf að vera raunverulegur valkostur og hún þarf að vera sveigjanleg. Með sveigjanleika getur þjónustan verið mismikil eftir þörf hverju sinni og hægt að laga hana að mismunandi þörfum og aðstæðum fólks.

Kerfið er fyrir fólkið

Kerfið, stuðningur og þjónusta innan þess snýst ekki aðeins um þann sem nýtir þjónustuna heldur líka aðstandendur, maka, systur og bræður, dætur, syni og vini. Þegar við veikjumst fá aðstandendur okkar í hendurnar ærið verkefni og mikil vinna tekur við. Það er okkar, sem erum í stjórnmálum, að grípa inn í og bæta og breyta kerfinu.

Árekstrar á milli ríkis og sveitarfélaga hafa því miður þvælst fyrir farsælli þróun í þessum málum. Þjónusta á að vera einföld, aðgengileg og skilvirk. Hún snýst um þann sem nýtir hana en ekki kerfið sjálft.

Flétta þarf betur saman verkefni og þjónustu ríkis og sveitarfélaga við eldra fólk með sérstakri áherslu á samþættingu heimahjúkrunar og stuðningsþjónustu. Finna þarf nýjar leiðir til þess að auka við stuðning og heimaþjónustu, samhliða því að stuðla að aukinni virkni. Með þessu móti verður að auki betur farið með sameiginlega fjármuni okkar allra.

Ákveðin gjá hefur myndast hjá hópi aldraðra þegar búseta í heimahúsi verður erfið og dvöl á hjúkrunarheimili hentar ekki eða er ekki í boði. Við þurfum áfram að tryggja framboð á fjölbreyttu húsnæði í sveitarfélaginu. Eins mun lækkun fasteignagjalda hafa jákvæð áhrif á þennan hóp.

Í hverju felast aukin lífsgæði?

Ríkið verður að fjölga rýmum á hjúkrunarheimilum og við þurfum að efla dagþjónustu. Heilsugæsluna verðum við að efla og tryggja þessum hópi greiðan aðgang að öldrunarlæknum og hjúkrunarfræðingum. Auk þess verðum við að huga betur að andlegri líðan bæjarbúa, ekki í síst í ljósi heimsfaraldurs. Við þurfum að tengja fólk saman og koma í veg fyrir félagslega einangrun sem er raunverulegur vandi hjá eldra fólki.

Mikil tækifæri eru í betri nýtingu á fjölbreyttri velferðartækni sem og samhæfingu milli þjónustukerfa með það að markmiði að bæta þjónustu. Ávinningurinn er hagkvæmni, minni sóun á tíma og mannafla og umfram allt annað, aukin lífsgæði og sjálfstæði notenda. Við þurfum að setja aukinn kraft og áherslu á innleiðingu velferðartækni í þjónustu við eldra fólk.

Eldra fólk er alls konar fólk. Fólk með mismundandi reynslu, ólík áhugamál, væntingar og þarfir. Við þurfum að auka virkni, tryggja ólíka valkosti og betri þjónustu.

Í því felast aukin lífsgæði.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu, 2. mars 2022

Áslaug Hulda Jónsdóttir © 2024. Allur réttur áskilinn.